Óttast að taka á fjárhagsvandanum

Gífurlegur ótti er meðal fólks við að taka á fjárhagsvanda sínum, segir Sigurður Erlingsson hjá ráðgjafafyrirtækinu Velgengi.is.

„Oft er fólk í sjálfskipaðri biðstöðu, kvíðinn eykst en vandinn bíður óleystur. Mikilvægt er að fólk horfist í augu við hann,“ segir Sigurður. Hann segir að oft komi í ljós að fólk sem sjái húsin sín auglýst á uppboði hafi ekki sótt frest til sýslumanna eða rætt við kröfuhafa. „Fólk áttar sig ekki á því að það þarf að sækja um frest skriflega." Bæði séu dæmi um að fólk þori ekki að fara eða viti ekki að það geti sótt frest á nauðungarsölu eigna þeirra.

Bætt lagastaða skuldara leyfir skuldugum nú að fá hálfs árs frest á uppboð eigna sinna án samþykkis kröfuhafa. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins virðist fólk smátt og smátt átta sig á breytingunni og sækja frestinn. Sigurður segir misjafnt hvort fresturinn gagnist fólki til að forða því frá gjaldþroti en hann gagnist mörgum til að vinna úr vondri stöðu sinni.

Við uppboð eigna hjá Sýslumanninum í Reykjavík á mánudag var Tollstjóraembættið það sem oftast var gerðarbeiðandi uppboða. Dögg Pálsdóttir, fyrrum þingmaður og lögmaður, bendir á að það sé athyglisvert: „Tollstjórinn er að innheimta opinber gjöld. Hefur fjármálaráðuneytið engin fyrirmæli gefið um það að lina á innheimtu opinberra gjalda? Á að selja heimilin ofan af þeim sem skulda skatta?“

Sigurður Skúli Bergsson aðstoðartollstjóri segir að búið sé að slaka nokkuð á innheimtunni og hækka skuldaviðmið áður en krafist sé innheimtuaðgerða. „Við knýjum ekki fram framhaldssölur þegar ríkið er einn gerðarbeiðandi,“ segir hann. Þónokkur tilfelli séu um slíkt. „Við höfum einnig frestað byrjunum uppboða í allt að ár frá fyrstu fyrirtöku og höfum verið mjög liðleg í því.“ Sigurður Skúli segir hvert tilfelli metið eftir aðstæðum.

„Við höfum hækkað lægsta viðmiðið vegna fjárnámsbeiðna úr 25 þúsund krónum í 50 þúsund. Almennt viðmið hefur hækkað úr 100 þúsund krónum í 150 þúsund. Síðan er nú ekki óskað eftir gjaldþrotaskiptum nema að krafan fari yfir tvær milljónir en viðmiðið var ein milljón áður.“ Aðgerðirnar séu því ýmsar og samræmdar. „Við höfum á ýmsan hátt brugðist við ástandinu til að auðvelda fólki lífið.“ Ekki sé hægt að hætta innheimtuaðgerðum. „Við þurfum þessa aura til að reka samfélagið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert