„Það eru viðurlög við þessu og þetta getur varðað sektum, hvort sem er af gáleysi eða ásetningi. Þetta er ólöglegt,“ segir Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri umhverfiseftirlits Reykjavíkurborgar, spurð út draslhauga sem hafa safnast saman í Úlfarsárdal í Reykjavík. Hreinsun svæðisins er hafin.
Svo virðist sem að verktakar og aðrir einstaklingar hafi losað sig við
sementspoka, steypustyrktarjárn, spýtur og ýmiskonar plastdrasl íbúum
og öðrum til mikils ama.
„Auðvitað er þetta ekki lagi og þetta er skelfileg umgengni þarna. Það er í algjörlega bannað að henda rusli. Það á að farga öllu rusli á móttökustöðvar og sérstaka staði sem til þess eru ætlaðir,“ segir Rósa.
Starfsmenn á vegum framkvæmda- og eignasviðs borgarinnar voru mættir til að hreinsa svæðið fyrir hádegi í dag. Ekki liggur fyrir hvað það muni kosta borgina að láta hreinsa svæðið en gera má ráð fyrir að hann sé allnokkur.
Skv. 11. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs er bannað að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma
úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýtum á umhverfinu.
Þetta gildi jafnt um smærri sem stærri hluti.
Mest af draslinu er við götuna
Mímisbrunn, skammt frá stórhýsi Bauhaus við Vesturlandsveg. Staðurinn
sést ekki vel frá veginum og því getur fólk athafnað sig þarna í ró og
næði og einhverjir hafa greinilega nýtt sér það.
„Þetta er verulega sóðalegt. Það er alveg grátlegt að sjá þennan sóðaskap,“ sagði Óttarr Örn Guðlaugsson, formaður hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. Hann skoðaði sig þar um eftir að blaðið benti honum á hvers kyns var.
„Það er ekki gott að segja hvers vegna fólk gerir þetta. Annað hvort nenna menn ekki með þetta í Sorpu eða þeir eru að spara. En fólk ætti að hafa í huga að þetta eru ekki ruslahaugar og með því að ganga svona um umhverfi sitt sparar það ekki neitt, með framtíðina í huga,“ sagði Óttarr Örn.