Forsvarsmenn sveitarfélaga hittust á fundi á Grand Hóteli í gær og ræddu rekstrarvanda sveitarfélaga í landinu. Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri á Ísafirði segir forsvarsmenn sveitarfélaga gera sér grein fyrir að staðan sé erfið um þessar mundir.
„Þessi kreppa er langvinnari en flest sveitarfélög gerðu ráð fyrir í upphafi þessa árs. Þess vegna þurfa forsvarsmenn sveitarfélaga að horfa lengra fram í tímann og endurskipuleggja þjónustustig sveitarfélaga frá a til ö,“ sagði Halldór í samtali við Morgunblaðið að loknum fundi í gær.
Hann sagði líklegt að staðan kallaði á lagabreytingar til að auðvelda sveitarfélögum að gera nauðsynlegar breytingar. Að sögn Halldórs var fundurinn vel sóttur en boðið upp á að fylgjast með honum í gegnum fjarfundarbúnað. Það nýttu fulltrúar sér sem ekki sáu sér fært að mæta á staðinn.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, var meðal þeirra sem tóku til máls á fundinum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins lagði hún áherslu á að forsvarsmenn sveitarfélaga skulduðu íbúum í landinu það að þeir legðu til hliðar „pólitískt karp“ og sameinuðust um að mæta þeim mikla vanda sem sveitarfélög væru í.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.