Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra, vill setja sérstakan skatt á sykraða gosdrykki. Hann lýsti þessu yfir í ræðu á ársfundi Sjúkrahússins á Akureyri í dag.
„Það er vitað að 10-15% barna á Íslandi býr við afar slæma tannheilsu og það kallar á kröftug viðbrögð stjórnvalda,“ sagði Ögmundur í samtali við Morgunblaðið eftir fundinn á Akureyri í dag.
Ögmundur sagði að ástandið kallaði á samstarf við heilbrigðis- og skólayfirvöld og málið snerist fyrst og fremst um neyslumynstur. „Það er hægt að hafa áhrif á það, eins og forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og prófessor í næringarfræði bentu á í grein í Morgunblaðinu á dögunum. Sérfræðingar Lýðheilsustöðvar hafa bent á þetta um árabil og á það verður að hlusta. Ég mun því taka málið upp í ríkisstjórninni og vil að við grípum til varnaraðgerða hið fyrsta, og að skoðað verði að setja sérstaka skatta á sykraða gosdrykki,“ sagði Ögmundur Jónasson.
Tveir vísindamenn, Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, og Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði, rituðu grein í Morgunblaðinu í byrjun mánaðarins þar sem þau hvetja til stýrðrar sköttunar á neyslu.
Í greininni kom fram að framboð gosdrykkja hérlendis hefur aukist ár frá ári, þannig var það tæpir 19 lítrar á mann á ári milli 1956 og 1960, rúmlega 40 lítrar 10 árum síðar og tæpir 75 lítrar 1976 til 1980. „Árið 1999 virðist framboðið ná hámarki, 160 lítrum á íbúa á Íslandi. Þetta svarar til rúmlega hálfs lítra á mann á dag sem auðvitað er misskipt frá engu til mjög mikils gosdrykkjaþambs. Síðasta rannsókn sem gerð var á landsgrundvelli á mataræði fullorðinna Íslendinga af Lýðheilsustöð staðfestir þetta. Rannsóknastofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala hefur rannsakað mataræði barna og unglinga sem sýnir meiri neyslu sykraðra gosdrykkja með vaxandi aldri. Meðalneysla 7 ára barna er desilítri á dag, 9 ára rúmlega 1 og hálfur desilítri og svo framvegis,“ segir í greininni.
Þau segja ennfremur: „Það er í þágu lýðheilsu í landinu að spyrna nú við fótum svo um munar. Aukagjald sem nemur tíu krónum á lítra gæfi ríkiskassanum um hálfan milljarð á ári miðað við rúmlega 150 lítra framleiðslu og sölu að meðaltali á mann á ári. Langtímasparnaður samfélagsins næðist síðan með minni neyslu og bættri heilsu,“ segir í grein Sigurðar og Ingu.