SAMTALS þiggja nú 22 ráðherralaun, samkvæmt svari skrifstofustjóra forsætisráðuneytisins, Óðins Helga Jónssonar, við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Þar af eru átta á biðlaunum til sex mánaða. Þeir eru Árni M. Mathiesen, Björn Bjarnason, Einar Kristinn Guðfinnsson, Geir H. Haarde, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Þá eru tveir fyrrverandi ráðherrar á biðlaunum til þriggja mánaða, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir.
Til viðbótar þessum tíu fyrrverandi ráðherrum sem nú þiggja biðlaun eru tólf ráðherrar í nýskipaðri ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Óðinn Helgi sagði ekki vera hægt að segja nákvæmlega hver kostnaðurinn yrði af þessu.
Sé mið tekið af launatöflu Kjararáðs, sem ákvarðar laun ráðherra, ætti kostnaður við greiðslu mánaðarlauna til þeirra sem eru á biðlaunum að nema tæplega 54 milljónum króna.
Mánaðarlaun ráðherra eru samkvæmt launatöflu 992 þúsund krónur en forsætisráðherra er með tæplega 1,1 milljón á mánuði.