Búið er að grípa til aðhalds í ferða- og dagpeningakostnaði borgarinnar. Það liggur í svari borgarfulltrúar framsóknar- og sjálfstæðismanna sem vísuðu í gær tillögu Ólafs F. Magnússonar borgarfulltrúa frá. Ólafur óskaði eftir því að borgin dragi úr ferðakostnaði kjörinna fulltrúa eins og kostur er.
„Það aðhald og sá mikli sparnaður sem þegar hefur verið gripið til vegna ferða- og dagpeningakostnaðar borgarinnar mætir að fullu því sem nefnt er í fyrirliggjandi tillögu [Ólafs]. Megininntak tillögunnar var þannig samþykkt með fjárhagsáætlun yfirstandandi árs þar sem öll svið og ráð leggja til verulegan sparnað á þessum kostnaðarlið. Tillögunni er því vísað frá,“ segir í rökstuðningi meirihlutans.
Ólafur vildi að borgarstjórnin samþykkti að vegna þeirrar efnahagskreppu sem ríki í landinu og vegna nauðsynlegs sparnaðar í útgjöldum borgarinnar dragi borgin úr ferðakostnaði kjörinna fulltrúa eins og kostur sé.
Samkvæmt fyrri frétt Morgunblaðsins námu heildarferðagreiðslur til Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins árin 2006-2008 rösklega 10 milljónum en innan við 5 milljónum hjá Samfylkingu, VG og F-lista.