Forseti og varaforsetar Alþingis eru allir konur en kosið var í embættin þegar þingfundi var haldið áfram nú síðdegis. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fékk 59 atkvæði þegar kosið var í embætti forseta Alþingis, þrír greiddu ekki atkvæði en einn þingmaður var fjarverandi.
Varaforsetar þingsins voru kjörnar Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, Þuríður Backmann og Álfheiður Ingadóttir, þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Í kjölfarið var kosið í nefndir þingsins. Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra fer fram á mánudagskvöld.