Gunnar Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Akraness, segir að ef ekki komi til arðgreiðslu Orkuveitu Reykjavíkur sé ljóst, að Akraneskaupstaður þurfi að grípa til mun harðari aðgerða og uppsagna starfsmanna. Mikilvægt sé að átta sig á því, að arðurinn rennur til samfélagsins en ekki til einstaklinga eða eignamanna.
Þetta kemur fram á vef Akranesbæjar í dag. Þar er einnig birt bréf frá Hjörleifi Kvaran, forstjóra OR, til starfsmanna Orkuveitunnar. Þar segir að arðgreiðslur til eigenda Orkuveitu Reykjavíkur séu með nokkuð öðrum hætti en gengur og gerist. Þær hafi verið föst fjárhæð en ekki hlutfall af hagnaði. Sveitarfélögin hafi þess vegna ekki verið að taka til sín mikinn hagnað í góðærinu, heldur skilið féð eftir í höndum fyrirtækisins til að byggja fyrirtækið frekar upp. Þau hafi heldur ekki gert miklar kröfur um arðsemi þess fjár, sem þau eigi í Orkuveitunni. Frekar hafi þau haldið verði á vörum OR og þjónustu eins lágu og mögulegt er og látið viðskiptavini þannig njóta aukinnar hagkvæmni.
„Þegar við vorum að vinna að gerð fjárhagsáætlunar, eftir hrunið í haust, var ljóst að afkoma fyrirtækisins 2008 yrði slæm og mjög erfitt ár framundan. Þá voru fyrstu aðhaldsaðgerðirnar ákveðnar og þeirra á meðal var að lækka arðgreiðslur um helming, úr 1600 milljónum í 800 milljónir. Það var tekjuskerðingin sem sveitarfélögin þrjú tóku á sig, 50 prósent lækkun. Nú eru þau að berjast við að halda uppi þjónustu, sem frekast er unnt, á sama tíma og reynt er að halda álögum á íbúa í skefjum. Þau eru ekki öfundsverð af því verkefni að fá nú hundruðum milljóna króna lægri fjárhæð til að reka leikskólana, grunnskólana og félagsþjónustuna, sem nú mæðir mikið á," segir m.a. í bréfinu.