Viðbúnaðarstig hér á landi vega inflúensufaraldursins er óbreytt frá því sem verið hefur vegna þess að inflúensa A (H1N1) hefur breiðst út til margra landa. Hins vegar er faraldurinn í Mexíkó í rénun og því hefur verið ákveðið, af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi, að aflétta viðvörun til ferðamanna um að ferðast ekki til Mexíkó að nauðsynjalausu.
Þá segir embætti sóttvarnarlæknis, að þar sem sýking af völdum inflúensunnar virðist vera væg sé ekki sérstök ástæða til að reyna að hefta komu hennar til Íslands. Því hefur verið ákveðið að draga úr vaktþjónustu í Leifsstöð. Frá og með deginum í dag verða heilbrigðisstarfsmenn einungis á bakvakt fyrir Leifsstöð en vaktþjónustu í stöðinni verður hægt að endurvekja með stuttum fyrirvara ef þörf krefur.
Að sögn embættis sóttvarnalæknis voru staðfest tilfelli inflúensunnar í morgun alls 7743 í 34 ríkjum í heiminum. Langflest flensutilfellanna eru í Bandaríkjunum eða 4298 og í þeirri tölu eru einnig líkleg flensutilfelli þar í landi. Staðfest dauðsföll vegna inflúensunnar eru nú 69 talsins, langflest í Mexíkó eða 64. Þrjú dauðsföll eru staðfest í Bandaríkjunum, eitt í Kanada og eitt í Kosta Ríka.
Enn sem komið er hefur veiran ekki greinst hér á landi og enginn lagst inn á Landspítala með alvarleg inflúensulík einkenni.
Landlæknisembættið hvetur ferðamenn til að gæta fyllsta hreinlætis á ferðum sínum erlendis, forðast náið samneyti við veika einstaklinga, þvo sér oft um hendur og/eða nota handspritt. Óvíst er að notkun almennings á andlitsgrímum dragi úr líkum á smiti og því er ekki hvatt til notkunar þeirra. Notkun heilbrigðisstarfmanna á andlitsgrímum, og grímunotkun sjúklinga með inflúensulík einkenni, getur hins vegar dregið úr smithættu.