Fornminjar koma í ljós á Þingvöllum

Gullhringurinn sem fannst við Þingvallakirkju.
Gullhringurinn sem fannst við Þingvallakirkju.

Ýmsar fornminjar hafa komið í ljós við Þingvallakirkju en þar hafa að undanförnu farið fram jarðvegsskipti undir eftirliti fornleifafræðinga. M.a. fannst innsiglishringur úr gulli milli hellna fyrir framan kirkjuna.  

Kirkjan sem nú stendur á Þingvöllum, var reist  árið 1859 og vígð á jóladag það ár.  Í tilefni af 150 ára afmæli Þingvallakirkju ákvað kirkjuráð þjóðkirkjunnar að leggja til fjármuni úr Jöfnunarsjóði til þess að lagfæra kirkjuna og umhverfi hennar. Búið er að mála kirkjuna að innan og skipta um ofna, en eftir er að laga bekki og gólf og bæta fúa í dyraumbúnaði. Fyrirhugað var einnig að færa glugga kirkjunnar í upprunalegt horf, en það verður að bíða af fjárhagsástæðum.

Nú stendur yfir lagfæring utandyra. Tröppur inn í kirkjuna verða endurgerðar og stækkaðar og aðgengi allra tryggt. Stétt að kirkju verður lagfærð og stígur bættur með suðurhlið kirkjunnar. Ennfremur verður lagfærð hleðsla kringum kirkjugarðinn fyrir tilstyrk kirkjugarðasjóðs, og verið er að smíða nýtt sáluhlið sem er eftirlíking sáluhliðsins sem var í garðinum frá því seint á 19. öld og fram undir miðja 20.öld.

Jarðvegskipti vegna stéttar að kirkjunni hafa verið undir eftirliti fornleifafræðings undanfarnar vikur.  Undir tröppum fyrir framan kirkjuna kom í ljós stétt sem að öllum líkindum hefur tilheyrt eldri kirkju á Þingvöllum. Við fornleifarannsókn sem fram fór árið 1999 fannst við norður horn kirkjunnar grjótundirstaða timburkirkju sem talinn er vera frá byrjun 16. aldar. Stéttin sem fannst er á svipuðu dýpi og ekki ólíklegt að stéttinn sé frá þeirri kirkju, en bíða verður eftir niðurstöðu úr rannsókn á gjóskusýnum áður en hægt verður að staðfesta það.

Mikið magn af gripum hefur komið fram við rannsóknina. Er fyrrnefndur innsiglishringur talinn þeirra merkastur en líklegt er að hringurinn hafi borist með jarðlagi sem flutt var á staðinn. Hringurinn er 12 karöt, steinninn er af gerðinni „heliotrop", stundum nefndur blóðsteinn. Þetta er tiltölulega mjúkur hálf eðalsteinn, oft notaður í innsigli. Anton Holt myntsérfræðingur hjá Seðlabanka Íslands telur að á innsiglinu séu stafirir FI eða J og bæði má sjá skjöld og kross á steininum og hugsanlega kórónu.   

Síðustu daga hefur verið að koma í ljós eldstæði í uppgreftinum, en uppgröfur á eldstæðinu stendur enn yfir.   Ljóst er að um afar merkilegar minjar er að ræða.  

Í næstu viku verður fyllt yfir uppgröftinn og hafist handa við að móta stétt að kirkjunni.  Endurgerð innandyra hefur verið unnin í samráði við Húsafriðunarnefnd og við frágang utandyra hefur Landmótun verið ráðgjafi.

Stéttin sem kom í ljós við kirkjuna.
Stéttin sem kom í ljós við kirkjuna.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert