Óþarfi að blanda Guði inn í þinghaldið

„Okkur finnst óþarfi að vera blanda Guði og trúarbrögðum inn í þinghaldið,“ segir Þór Saari sem ákvað ásamt öðrum þingmönnum Borgarahreyfingarinnar og einum þingmanni Vinstri grænna að sleppa því að taka þátt í þingsetningarathöfninni í Dómkirkjunni í dag.

„Mér finnst persónulega, ef að menn vilja endilega vera að hræra Guði saman við þetta, þá ætti fremur að gera það kannski að lokinni þingsetningu frekar. Gefa þá þeim kost á því að fá blessun eftir þingsetninguna en ekki vera að byrja þingsetninguna á guðsþjónustu. Mér finnst það alls ekki við hæfi í nútíma lýðræðisríki,“ segir Þór.

„Ég kom héðan og fór inn á þing. Með því að standa hérna úti á Austurvelli þá vil ég minnast á kröfur fólksins sem safnaðist hérna saman í allan vetur og krafðist réttlætis og sanngjarnari skiptingu skuldabyrðanna,“ segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG.

„Fyrir mig er þetta mjög táknrænn staður.  Ég hafði ekki áhuga á að fara í pólitík áður en mótmælin byrjuðu hérna á Austurvelli,“ segir Lilja ennfremur.

Þingsetningarathöfnin hófst kl. 13.30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, biskupinn yfir Íslandi, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn gengu þá fylktu liði til kirkjunnar undir hrópum og köllum mótmælenda við Austurvöll. Að guðsþjónustu lokinni gekk hópurinn til þinghússins. Forseti Íslands setti svo Alþingi, 137. löggjafarþing.

Þór segir spennandi að takast á við þingstörfin. „Þetta verður örugglega öðruvísi þing heldur en mörg önnur og ég hlakka einfaldlega til að taka þátt í því. Og hlakka líka til að gera það öðruvísi. Það er eitt sem við komum hérna til að gera. Hjartað slær hérna á Austurvellinum og nú er það komið inn fyrir. Við þurfum að láta það heyrast þarna fyrir innan,“ segir Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka