Segir þingsályktunartillögu fádæma rugl

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson. mbl.is/Ómar

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, segir að tillaga ríkisstjórnarinnar um aðild að Evrópusambandinu sé slíkt fádæma rugl að hún eigi sér engan líka.

„Verði hún samþykkt fær ríkisstjórnin samþykki Alþingis fyrir því að leggja inn umsókn um aðild að ESB án nokkurra skilyrða né samningsmarkmiða og það sérkennilega er að ákveðið er fyrirfram að aðildarsamningur verði gerður og um hann kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu," segir Kristinn í pistli á heimasíðu sinni.

„Það blasir við að þeir sem vilja inn í ESB munu berjast af hæl og hnakka fyrir því að samningur verði samþykktur í boðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu hversu lélegur sem hann kann að verða. Í þeirri baráttu verður öllu tjaldað til svo samþykki fáist. Með svona tillögu þarf ekki að spyrja að leikslokum. Hagsmunum landsbyggðarinnar verður fórnað fyrir stuðning á höfuðborgarsvæðinu með eftirgjöf í sjávarútvegi og landbúnaði. Það er hámark ósvífninnar ef þessi ömurlega þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt á ríkisstjórnarfundi á Akureyri," segir Kristinn ennfremur.

Heimasíða Kristins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert