Síminn mun frá og með 1. júlí lækka verð á útlandasímtölum. Stærsta breytingin er sú, að mæling símtala verður breytt þannig að í upphafi símtals verða gjaldfærðar 30 sekúndur og síðan fyrir hverja sekúndu eftir það.
Nú er verðskrá útlandasímtala með þeim hætti, að í upphafi eru gjaldfærðar 60 sekúndur og fyrir hverjar 60 sekúndur eftir það.
Þá segir Síminn að nokkur lækkun verði á mínútugjaldi. Þegar íslenskur notandi hringir í útlöndum fer gjaldið úr 0,46 í 0,43 evrur á mínútu og þegar tekið er við símtali í útlöndum fer gjaldið úr 0,22 evrum í 0,19 evrur á mínútu.
Verð á fjarskiptum innan Evrópusambandsins lækkar í þrepum ár hvert skv. reglugerð og mun gera það til ársins 2012. Er þessi lækkun nú í samræmi við sameignlegar reglur ESB og EES um þak á verðlagningu.