Styrkir veittir til húsverndar

Veltusund 3B er meðal þeirra húsa sem fá styrk.
Veltusund 3B er meðal þeirra húsa sem fá styrk. mbl.is/Árni Sæberg

Styrkir voru veittir úr Húsverndarsjóði Reykjavíkur í gær. Hæsti styrkurinn, 1,65 milljónir króna, var veittur vegna Kirkjutorgs 4 en það hús er talið mjög mikilvægt í ásýnd borgarinnar.

Þá voru veittir styrkir til þriggja húsa sem hafa það sameiginlegt að þau eru öll timburhús sem hafa verið forsköluð, þ.e. upphaflegri klæðningu þeirra skipt út fyrir múrhúðun. Á að færa klæðninguna til upprunalegs horfs. Þessi hús eru Veltusund 3B, sem fær 1,1 milljón, Kárastígur 3, sem fær 700 þúsund, og Ránargata 24, sem fær 800 þúsund.  

Einnig fær Þingholtsstræti 8 og 8A einn af hæstu styrkjunum, 750 þúsund krónur vegna mikilvægis í götumynd sem lagt er til að friða í heild. Þá fékk Guðspekifélagið styrk til að kanna megi ástand hússins. Það hús var  byggt árið 1905 fyrir söfnuð aðventista en hækkað 1919 og var húsið þá í eigu Guðspekifélags Íslands. Húsið hefu síðan verið klætt bárujárni en nú á að færa það til fyrra horfs.

Hlutverk Húsverndarsjóðs er að veita styrki til endurgerðar eða viðgerða á húsnæði eða öðrum mannvirkjum í Reykjavík, sem sérstakt varðveislugildi hafa af listrænum eða menningarsögulegum ástæðum, enda séu framkvæmdir í samræmi við upprunalegan byggingarstíl mannvirkis og sjónarmið minjavörslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert