Lögreglan á Suðurnesjum svipti í kvöld 17 ára pilt ökuleyfi á staðnum eftir að hann var tekinn á 177 km hraða á Reykjanesbrautinni. Leyfilegur hámarkshraði er 90 km hraði. Á sama tíma varð húseigandi var við innbrotsþjófa í íbúð sinni er hann var í kaffiboði í næsta húsi.
Að sögn lögreglunnar er sjaldgæft að ökumenn séu teknir á svo miklum hraða en akstursskilyrði voru með besta móti á brautinni í kvöld, bjartviðri og þurr akvegur.
Lögreglunni barst tilkynning frá vegfarendum um vítaverðan akstur og vildi svo heppilega til að sérsveitarmaður var í nágrenninu sem mældi hraða bílsins og tók síðan manninn höndum.
Hann var svo færður á lögreglustöð þar sem hann var sviptur ökuréttindum.
Á sama tíma varð húsráðandi í Keflavík var við innbrot í íbúð sína þar sem hann var í kaffi hjá nágranna sínum. Hljóp hann þá til og hrakti fjóra grímuklædda menn á flótta.
Lögregla leitar mannanna en þeir voru að róta í húsmunum þegar þeir lögðu á flótta.