Þjóðin tók valdið í sínar hendur

Þingmenn hlýða á forseta Íslands í dag.
Þingmenn hlýða á forseta Íslands í dag. mbl.is/Kristinn

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði við þingsetningu í dag, að þjóðin hefði með festu og öryggi tekið valdið, sem henni bar, í sínar hendur þegar kosið var til Alþingis í apríl. Þá sagði hann að umræðan um Evrópusambandsaðild gæti, ef illa tekst til, klofið þjóðina.

„Í kjölfar bankahrunsins og áfalla í efnahagslífi, tíðra mótmæla á Austurvelli og átaka hér við Alþingishúsið var í byrjun febrúar mynduð ríkisstjórn til bráðabirgða og um leið ákveðið að leita til þjóðarinnar, treysta því að dómstóllinn sem hin lýðræðislega stjórnskipun Íslendinga byggir á, fólkið í landinu, myndi vísa veginn.

Aldrei fyrr hefur Alþingiskosningar borið að með slíkum hætti og mikilvægt að geta nú fagnað því að þjóðin tók af öryggi og festu valdið sem henni bar í sínar hendur. Það sýnir styrk lýðræðisins meðal okkar og rætur þess í hugum fólksins, hefðum og siðum sem allir virða.

Þótt eðlilega sýnist sitt hverjum um úrslitin hlýtur sérhver Íslendingur, og þá jafnframt þingheimur í þessum sal, að þakka fyrir þá forsjá fyrri kynslóða að hafa mótað hér stjórnskipun og lýðræðislegt samfélag sem stóðst hina miklu þolraun, liðaðist ekki í sundur vegna átaka og erfiðleika sem sagan sýnir að lamað hafa ýmis ríki," sagði Ólafur Ragnar.

Hann sagði einnig, að þótt margt megi sannarlega bæta í stjórnskipan landsins blasi engu að síður við sú staðreynd að stjórnarskráin sem þjóðin samþykkti við lýðveldisstofnun dugði vel þegar mest á reyndi.

„Þjóðinni var fært það vald sem hún kallaði eftir, alþingiskosningar fóru fram, ríkisstjórn með meirihluta að baki sér kemur til hins nýja þings og víðtækari breytingar hafa orðið á löggjafarstofnuninni en nokkru sinni á lýðveldistíma," sagði Ólafur Ragnar.

ESB-umræða gæti klofið þjóðina 

Forsetinn sagði, að Alþingis biðu síðan erfiðari verkefni en oftast áður; endurreisn fjármálakerfis, atvinnulífs og heimilanna, að tryggja velferð þúsunda sem glími nú við atvinnuleysi, tekjutap og eignamissi og að efla umsvifin í byggðum landsins.

Þá sagði hann að enn sætu á þingi alþingismenn sem kynntust því á yngri árum hvernig ágreiningur um tengslin við önnur ríki  klauf þjóðina í herðar niður.

Við þurfum öll að hafa í huga, hvaða stöðu sem við gegnum eða hver sem afstaðan er til aðildar, að í þessum efnum er það þjóðin sem ræður. Okkar skylda er fyrst og fremst að búa málið vel í hennar dóm, að forðast eftir fremsta megni að úrslitin skilji eftir djúpstæða gjá," sagði Ólafur Ragnar Grímsson.

Ávarp forseta Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson setur Alþingi í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson setur Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gengur í Alþingishúsið ásamt þingmönnum.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gengur í Alþingishúsið ásamt þingmönnum. mbl.is/Jón Pétur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert