Kristinn Örn Jóhannesson, formaður VR, segir að stjórn félagsins hafi ekki samþykkt að mælast til þess að laun forstjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna verði lækkuð. Stjórnin hafi hins vegar verið efnislega sammála um að beina þeim tilmælum til stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að kjör forstjóra tækju mið af kjörum forsætisráðherra.
„Ég lagði tillöguna fram og hún var samþykkt samhljóða,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR, við mbl.is í dag. Sagði Ragnar að stjórn VR hefði samþykkt á fundi sínum á miðvikudag að leggja fyrir ársfund Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að þak verði sett á laun æðstu stjórnenda sjóðsins og að þau verði ekki hærri en laun forsætisráðherra eða fjármálaráðherra.
Kristinn Örn hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir:
Á fundinum sagði Ragnar Þór Ingólfsson stjórnarmaður í VR frá hugmyndum sínum um að leggja fram tilmæli til stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á ársfundi þann 25 maí þess efnis að kjör framkvæmdastjóra sjóðsins tækju mið af kjörum forsætisráðherra. Óskaði hann eftir stuðningi og aðstoð við gerð tillögunnar.
Samþykkti stjórn VR tillögu formanns þess efnis að hann myndi aðstoða Ragnar við orðalag tillögunnar og að leggja fram slíka tillögu.
Jafnframt var samþykkt að annar stjórnarfundur yrði boðaður um miðja næstu viku m.a. til að fjalla um væntanlega tillögu.
Að ofansögðu er það ljóst að stjórn VR hefur ekki samþykkt neina tillögu sem slíka en var efnislega sammála um að beina þeim tilmælum til stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að kjör framkvæmdastjóra tækju mið af kjörum forsætisráðherra.
Finnst mér það miður og gagnrýnivert að, fyrir frumhlaup eins stjórnamanns, hafi ekki tekist að halda þessari vinnu í þeim farvegi sem hún var í og sátt ríkti um.