„Svona fær maður bara einu sinni“

„Þetta var rosalega gaman – svona fisk fær maður bara einu sinni,“ sagði Ágúst J. Elíasson sem í upphafi vikunnar setti í og landaði 22 punda urriðatrölli við Vatnskot á Þingvöllum. Fiskurinn sem var hængur, 94 cm langur, tók maðk.

Nokkuð margir veiðimenn voru þetta kvöld í þjóðgarðinum að reyna við urriða, en frést hafði af góðri veiði í vatninu í liðinni viku. Á meðal veiðimannanna voru Ágúst og eiginkona hans, Hrafnhildur Sigurhansdóttir. Þau hafa haldið reglulega til veiða síðustu ár og fengið tveggja, þriggja punda silunga, sá stærsti var sex pundari sem Hrafnhildur fékk í fyrra.

„Þessi tók strax vel í. Það voru ekki mikil læti í honum en hann var þungur. Æddi út með línuna. Ætli ég hafi ekki verið með hann á í svona 20 mínútur,“ segir Ágúst. „Adrenalínið var á fullu. Ég ætlaði að sporðtaka hann en gat það ekki, stirtlan er svo þykk.Þetta er ofboðslega fallegur fiskur.“

Ágúst segist gera ráð fyrir að urriðinn verði stoppaður upp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert