Vilja lækka laun stjórnenda lífeyris VR

Ragnar Þór Ingólfsson
Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórn VR samþykkti á fundi sínum á miðvikudag að leggja fyrir ársfund Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að þak verði sett á laun æðstu stjórnenda sjóðsins og að þau verði ekki hærri en laun forsætisráðherra eða fjármálaráðherra. Álit stjórnarinnar nú í höndum lögfræðings.

„Ég lagði tillöguna fram og hún var samþykkt samhljóða,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, sem kosinn var í stjórn VR fyrr á árinu. Hann bendir á að verði tillagan samþykkt þýði það að æðstu menn sjóðsins þurfi að skerða laun sín um helming.

Ragnar vill einnig sjá að bílafríðindi stjórnenda lífeyrissjóðsins verði afnumið. „Það er óþolandi að menn með milljónir á mánuði geti ekki greitt rekstur og bensín á eigin bifreið vitandi til þess að stór hluti á mínum iðgjöldum fer í þessa vitleysu.“

Á vefsíðu sinni birtir Ragnar útreikninga sína og segir að iðgjöld 133 sjóðsfélaga á lágmarkslaunum þurfi til að greiða launakostnað forstjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Þorgeirs Eyjólfssonar, og aðra sextán til að greiða af jeppanum sem hann hafi til afnota og reksturinn á honum. Iðgjöld þessara einstaklinga fari því ekki í að safna fyrir lífeyri þegar vinnuskyldunni ljúki. Forstjórinn sé með mun hærri laun en forstjórar annarra lífeyrissjóða.

Ragnar segir nú ljóst að ábyrgð þeirra sem rekið hafa lífeyrissjóðinn sé lítil sem engin, þó séu há laun þeirra réttlætt með mikilli ábyrgð sem þeir beri. Hann segir álit stjórnarinnar nú í höndum lögfræðings svo rétt verði staðið að breytingunum. „Þetta eru fyrstu skrefin.“

Stjórn VR á fjögur sæti í stjórn lífeyrissjóðsins á móti fjórum sætum fulltrúa Samtaka atvinnulífsins. Ragnar ætlar einnig að fara fram á að fulltrúar atvinnurekenda víki úr stjórninni. „Þeir eiga ekkert erindi þarna inni. Þetta eru okkar peningar. Þeir gerðu örugglega sjálfir athugasemdir sætu launamenn í stjórnum fyrirtækja - fjórir á móti fjórum.“

Aðalfundur lífeyrissjóðsins verður haldinn 25. maí og hvetur Ragnar alla sjóðsfélaga að mæta: „Ég vonast til þess að sjóðsfélagar fjölmenni á fundinn. Ég vona að þeir mæti og styðji þetta mál.“

Hvort Ragnar sjái æðstu stjórnarmenn taka launaskerðingunni svarar hann: „Að mínu mati er ekki eftirsjá að þeim sem stjórna Lífeyrissjóði verzlunarmanna í dag. Ef að viðkomandi aðilar geta ekki sætt sig við þau launakjör sem aðalfundurinn mun vonandi samþykkja mega þeir gjarnan víkja.“

Lífeyrissjóður verslunarmanna tapaði 32 milljörðum á fjárfestingum sínum á síðasta ári. Ávöxtun eigna sjóðsins var neikvæð um 11,8% á árinu og raunávöxtun neikvæð um 24,1%. Þegar litið er hins vegar til síðustu fimm eða tíu ára sést að hrein raunávöxtun hefur verið jákvæð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert