Fái leyfið af mannúðarástæðum

Hitchem Mansrí.
Hitchem Mansrí. mbl.is/Kristinn

Kæra hælisleitandans Hitchems Mansrís, sem enn er í hungurverkfalli í mótmælaskyni við seinagang stjórnvalda, er nú til meðferðar hjá dómsmálaráðuneytinu en lögfræðingur hans, Katrín Theodórsdóttir, skilaði inn greinargerð sinni 13. maí.

Í greinargerðinni eru, að sögn Katrínar, færð rök fyrir því að Mansrí sé réttilega í stöðu flóttamanns.

Útlendingastofnun hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að Mansrí uppfyllti ekki skilyrði flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. „Ef ekki verður fallist á að hann heyri undir hin þröngu skilyrði flóttamannasamningsins er þess krafist að hann fái dvalarleyfi af mannúðarsjónarmiðum,“ segir Katrín. Það rökstyður hún með almennum mannúðarsjónarmiðum auk þess hve málið hafi dregist lengi í meðförum Útlendingastofnunar að ástæðulausu, eða frá ágúst 2007 til ágúst 2008. „Þegar málin taka svona langan tíma er ástæða í sjálfu sér til að veita mönnum dvalarleyfi af mannúðarástæðum, því þessi sífellda óvissa getur haft gríðarleg sálræn áhrif.“

Katrín bendir þó á að málið sé tvíþætt. Stjórnvöld verði að vinna vel til að niðurstaðan sé efnislega rétt, það taki sinn tíma. Hins vegar verði að vinna málið eins hratt og hægt er.

„Það er ekki hægt að afsaka Útlendingastofnun með því að hún hafi verið að rannsaka málið, því ég get ekki séð annað en að það hafi legið óhreyft.“ Töfin liggur hins vegar ekki hjá ráðuneytinu að sögn Katrínar, þar sé málið í eðlilegum farvegi.

„Ráðuneytið hefur sagt að við afgreiðsluna verði tekið tillit til tafarinnar sem málið hefur þegar orðið fyrir hjá Útlendingastofnun.“

Umdeilt er hvort hungurverkfall sé tímabær aðgerð á þessu stigi málsins. Dómsmálaráðherra hefur sagt að ekki verði látið undan þrýstingi þeirra sem fari í hungurverkfall þegar taka þurfi vandasamar stjórnvaldsákvarðanir. Ráðuneytið hefur nú á sínum höndum rannsókn sem nær út fyrir landsteinana, til Alsírs.

Í gegnum tíðina hafa yfirvöld gjarnan verið gagnrýnd fyrir ónákvæm vinnubrögð í rannsókn mála sem þessa og því er ekki víst að fljótfærnisleg vinnubrögð vegna þrýstings verði á endanum til hagsbóta fyrir meðferð málsins.

Borðar ekki enn

Útlendingastofnun taldi Mansrí ekki uppfylla þessi skilyrði skv. þeim gögnum sem hann kynnti mál sitt með.

Mansrí er nú á 24. degi hungurverkfalls en heilsast ágætlega að verkjum undanskildum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert