Götulistamenn frá áströlsku borginni Melbourne munu í dag gleðja gesti og gangandi við Austurvöll með sýningu á rúmlega fjögurra metra háum sveigjanlegum stöngum.
Sýningin hefst klukkan 14.00 og lýkur tveimur tímum síðar.
Atburðurinn er hluti af dagskrá Listahátíðar Reykjavíkur en á vef hátíðarinnar segir að sérstaða hópsins liggi „í einstökum hreyfingum og mikilli nálægð við áhorfendur“.
Á vef hátíðarinnar segir:
„Hópurinn er skipaður snjöllum listamönnum sem segja skemmtilegar sögur og íklæðast skrautlegum búningum, en tjáning þeirra byggir í senn á leikhúsi, dansi og sirkusatriðum.
Þessir áströlsku götulistamenn hafa ferðast um heiminn þveran og endilangan og náð með nánast dáleiðandi hætti að heilla meira en milljón áhorfendur á öllum aldri í nær öllum heimsálfum.
Sagan sem þeir flytja á Íslandi heitirAkurinn og segir af helgisiðum tengdum tilhugalífinu; brostnum hjörtum og mögnuðum sveiflum.
Inntak sögunnar er ást, frelsi og einmanaleiki sem ávallt nær að heilla áhorfendur með fegurð og gleði.“
Nálgast má dagskrá hátíðarinnar hér.