Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2009 komu í hlut Rauða Kross Íslands. Í umsögn dómnefndar segir að Rauði krossinn hafi innt af hendi kraftmikið starf í borgarsamfélaginu á liðnum árum. Hreyfingin standi vörð um mannréttindi, heilbrigði og virðingu einstaklinga og bregðist við neyð jafnt innanlands sem utan.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Höfða í morgun. Ahn Dao Tran stjórnarmaður í RKÍ og Sólveig Ólafsdóttir sviðsstjóri hjá RKÍ veittu verðlaununum viðtöku.
Í tilkynningu segir að Reykjavíkurborg hafi unnið að ýmis konar samstarfsverkefnum með hreyfingunni svo sem í rekstri Konukots, móttöku kólumbískra flóttamanna, rekstri hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar o.fl. Rauði kross Íslands hafi jafnframt „sýnt og sannað á liðnum mánuðum hversu vel og örugglega þeim [hafi] tekist að sveigja starfsemi sína að breytingum í samfélaginu“.
Í tilkynningunni segir:
„Í dag 16. maí er mannréttindadagur Reykjavíkurborgar og þann dag eru veitt sérstök mannréttindaverðlaun þeim einstaklingum, félagssamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa. Markmiðið með mannréttindadeginum er að vekja athygli á þeim málum sem varða mannréttindi borgarbúa og á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.“