Alls höfðu 92 fasteignir farið á uppboð á fyrstu fjórum mánuðum ársins hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík. Það eru nærri þrefalt fleiri en á sama tíma í fyrra, þegar 35 fasteignir fóru á uppboð frá janúar til apríl.
Nauðungarsölubeiðnir á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs voru nærri 700 talsins. Flestar voru beiðnirnar í janúar, eða 216, en fóru niður í 134 í apríl sl.
Allt síðasta ár var 161 fasteign seld nauðungarsölu hjá sýslumanninum í Reykjavík og beiðnir voru alls 2.277. Til samanburðar fóru 137 fasteignir á uppboð í umdæmi embættisins árið 2007 og 91 árið þar áður.
Svipaður fjöldi bíla
Í lok síðasta mánaðar höfðu 142 bílar verið seldir á uppboði hjá sýslumanninum í Reykjavík. Er það mjög svipaður fjöldi og á sama tíma á síðasta ári. Embættinu bárust á fyrstu fjórum mánuðum ársins beiðnir um 355 nauðungarsölur á bílum.
Til samanburðar var alls 491 bifreið seld á uppboði allt síðasta ár og skráðar nauðungarsölubeiðnir 2.019 og beiðnir vegna annars lausafjár voru 130. Árið 2007 fóru 419 bílar á uppboð.