Fjölmargir bíleigendur, sem tóku erlend myntkörfulán fyrir kaupum sínum á síðustu árum, hafa nýtt sér möguleika fjármögnunarfyrirtækjanna á frystingu lána eða annars konar skuldbreytingu. Flest hafa fyrirtækin þá skilmála að lánin þurfa að vera í skilum til að verða fryst.
Samkvæmt tölum frá Umferðarstofu eru um 70 þúsund ökutæki í landinu skráð í eigu bílafjármögnunarfyrirtækja og lauslega má ætla að á bilinu 25-30 þúsund bíleigendur hafi nýtt sér möguleika á einhvers konar skuldbreytingu. Útistandandi bílalán eru á bilinu 150-160 milljarðar króna en ekki allt í erlendri mynt. Þeir sem tóku innlend lán að einhverju eða öllu leyti hafa í litlum mæli nýtt sér frystingu.
Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjunum hafa vanskil eitthvað aukist og sitja þau uppi með mun fleiri ökutæki en fyrir banka- og gengishrunið í haust.
Reyna fyrirtækin að koma bílunum aftur í umferð, ýmist sjálf eða gegnum bílasölur. Gengur það upp og ofan þar sem sala notaðra og nýrra bíla er mjög treg um þessar mundir. Sem dæmi um aukna vörslusviptingu má nefna að í lok febrúar sl. hafði Íslandsbanki Fjármögnun fengið til baka 140 bíla frá áramótum og nú er sú tala komin upp í 250. Skipta þessir bílar einnig hundruðum hjá flestum öðrum fyrirtækjum en þau hafa annars ekki verið viljug að gefa þessar upplýsingar.
SP-Fjármögnun hefur síðan í febrúar boðið sínum viðskiptavinum að greiða sambærilega mánaðargreiðslu og í upphafi samnings, að viðbættum 25% í allt að átta mánuði. Lengist lánið sem því nemur.
„Hin mikla veiking krónunnar er að valda okkar viðskiptavinum miklum erfiðleikum og áframhaldandi veiking er vissulega áhyggjuefni,“ segir Már Másson, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, en bendir á samt sé langstærstur hluti viðskiptavina bankans í skilum með bílalánin, vanskilahlutfallið upp á 1,6%. Þeir sem nýti sér úrræði bankans geti lækkað greiðslubyrðina töluvert.
*Lán í 50% jen og 50% svissn. fr.