Vill fundi um arðgreiðslur OR

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, hefur óskað eftir því að efnt verði til funda með fulltrúum stéttarfélaga við fyrsta mögulega tækifæri vegna deilna um arðgreiðslur Orkuveitu Reykjavíkur í borgarsjóð.

Hefur Dagur farið þess á leit að fulltrúar stéttarfélaga verði kallaðir til samráðsfundar með aðgerðahópi borgarstjórnar. Segir hann að gert sé ráð fyrir slíku samráði í aðgerðaráætlun borgarinnar sem samþykkt var í haust en af því hafi því miður ekki orðið.  

Dagur segir í tilkynningu, að þögn og samskiptaleysi borgaryfirvalda virðist vera farin að trufla aðdraganda viðræðna um stöðugleikasáttamála á vinnumarkaði. Slíkur sáttmáli sé einn af hornsteinum efnahagsstefnu nýrrar ríkisstjórnar og skipti höfuðmáli til að ná samstöðu þjóðarinnar um leiðir út úr kreppunni. 

Dagur segir, að fyrstu formlegu fundir um stöðugleikasáttamálann séu ráðgerðir á þriðjudag og því er mikilvægt fundum verði komið á hið fyrsta.

Stéttarfélög hafa gagnrýnt harðlega, að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, sem er í eigu sveitarfélaga, hafi ákveðið að greiða 800 milljónir króna í arð á sama tíma og starfsmenn fyrirtækisins hafi tekið á sig launalækkun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka