Fréttaskýring: Kostnaðargreiðslur bætast við kaupið

mbl.is/Ómar

Þingmenn í breska þinginu hafa orðið uppvísir að því að raka til sín fé með því að láta þingið greiða ýmsan kostnað sem flestum þykir þingstörfum óviðkomandi. Íslenskir þingmenn fá ýmsar greiðslur frá þinginu og um þær gilda skýrar reglur.

Karl Magnús Kristjánsson, aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis, segir að þar sem þær starfsgreiðslur sem þingmenn geti fengið séu bundnar við tiltekna fjárhæð sé hætta á misferli hverfandi. Reglur Alþingis séu stífari en hjá flestum öðrum, s.s. hjá fyrirtækjum. Þá bendir hann á að það hafi verið regla í mörg ár að þingmenn fljúgi á almennu farrými, þegar þeir ferðast á vegum Alþingis.

Fastar upphæðir

Þingfararkaup er 520.000 krónur. Til viðbótar eiga alþingismenn rétt á að fá svonefnda kostnaðargreiðslu, þ.e. að fá endurgreiddan kostnað sem hlýst af starfi þeirra. Langflestir velja að fá fasta greiðslu í hverjum mánuði, 66.400 krónur (796.800 kr, á ári.). Þeir þurfa ekki að framvísa kvittunum og er staðgreiðsluskattur dreginn af fjárhæðinni. Einnig geta þeir valið um að fá einungis greitt gegn framvísun reikninga og er hámark slíkrar greiðslu 796.800 kr. á ári en enginn skattur er dreginn af þeirri fjárhæð.

Þingmenn fá allir greiddan ferðakostnað í eigin kjördæmi sem skal standa undir ferðakostnaði og uppihaldi í kjördæminu. Fjárhæðin árið 2009 er 61.400 á mánuði.

Þá má endurgreiða ferðakostnað innan kjördæmis fyrir ferðir á fundi eða samkomur sem þingmaður boðar til eða hann er boðaður á, enda sé veglengdin á fundarstað meiri en 15 km (önnur leiðin) frá heimili.

Þingmenn eiga rétt á að fá endurgreiddan símakostnað sem tengist þingstörfum. Þingmenn eru hvattir til að gæta aðhalds í símanotkun og þeim er send tilkynning ef símreikningurinn fer yfir 40.000 krónur „svo þeir geti sjálfir gert viðeigandi ráðstafanir, þ.e. ákveðið að greiða hluta kostnaðar sjálfir“ eins og segir í Háttvirtum þingmanni. Þingmönnum er í sjálfsvald sett hvort þeir greiða hluta reikningsins eða ekki.

Óhætt er að reikna með að símareikningur einstaklings, burtséð frá þingstörfum, sé a.m.k. 10.000 krónur á mánuði. Ef þeirri fjárhæð er bætt ofan á þingfararkaup, ferða- og starfskostnaðargreiðslur er upphæðin 657.800 krónur á mánuði.

Uppbót vegna búsetu

Þingmenn annarra kjördæma en Reykjavíkurkjördæma og Suðvesturkjördæmis fá fasta upphæð mánaðarlega, 90.700 krónur, sem er ætlað að standa undir húsnæðis- og dvalarkostnaði í Reykjavík eða nágrenni. Eigi þeir aðalheimili á höfuðborgarsvæðinu er fjárhæðinni ætlað að standa undir sams konar kostnaði í kjördæmi. Þingmaður sem heldur tvö heimili getur sótt um 40% álag (samtals 127.000 kr).

Þingmenn utan höfuðborgarsvæðisins eiga rétt á að fá endurgreiddan vikulegan ferðakostnað milli heimilis og Alþingis.

Forsetinn má fá bíl

Forseti Alþingis nýtur sömu launa- og starfskjara og ráðherrar. Laun hans eru 855.000 á mánuði og hann fær að auki sömu kostnaðargreiðslur og þingmenn og getur líka fengið bíl frá Alþingi sem þingvörður ekur.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, nýkjörinn forseti, gengur yfirleitt í vinnuna en segist væntanlega nota bíl Alþingis ef hún þurfi eitthvað að skottast fyrir þingið. Ásta er ekki á biðlaunum sem ráðherra þar sem hún tók við sambærilegu starfi.

Tveir varaforsetar þingsins fá 15% álag ofan á þingfararkaup, alls 598.000 kr. Sömu kjara njóta tólf formenn fastanefnda þingsins.

Þeir þingmenn sem eru formenn stjórnmálaflokka sem hafa fengið a.m.k. þrjá þingmenn kjörna og eru ekki jafnframt ráðherrar fá greitt 50% álag á þingfararkaup, 780.000 krónur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka