„Að sjálfsögðu er þörfin mikil,“ segir Ásta S. Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, varðandi þörf almennings á fjármálaráðgjöf í núverandi efnahagsástandi. Fólk á öllum aldri þurfi á aðstoð að halda. Ný starfsstöð ráðgjafarstofunnar var opnuð í Sóltúni 26 í Reykjavík í dag.
„Meginmarkmiðið er að ná niður biðlistum og að fólk geti fengið aðstoð sem allra fyrst,“segir Ásta í samtali við mbl.is.
„Ég hef fundið fyrir því - bara núna í morgun - að fólk er mjög þakklátt og ánægt að geta komið hingað. Mér finnst að þessi fyrsti hálfi dagur lofi mjög góðu.“
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að efla eigi Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna til að stytta biðtíma eftir viðtölum. Starfsstöðin í Sóltúni er sett á laggirnar tímabundið en lagt verður reglubundið mat á þörf fyrir áframhaldandi starfsemi.
Ráðgjafarstofan er einnig til húsa að Hverfisgötu 6.
Heimasíða Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna.