Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld, að samningar við norrænu ríkin og seðlabanka um gjaldeyrislán væru á lokastigi og lánaskilmálar því sem næst frágengnir.
Þá sagði Steingrímur að sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komi hingað til lands í þessari viku til að ræða við ríkisstjórnina og aðra aðila að eigin ósk og ætlunin sé að endurskoðun samstarfsáætlunarinnar fari fram í kjölfarið. Í byrjun júní myndu síðan fara fram næstu samningafundir við Breta um Icesave reikninga Landsbankans.
Á næsta eina til eina og hálfa mánuði ætti síðan að takast að ljúka endurskipulagningu bankakerfisins, sem hefði reynst tímafrekara en upphaflega var talið.
Steingrímur sagði, að stjórnarmyndunin í vor hefði ekki verið án fórna og málamiðlana af hálfu VG og vísaði m.a. til þess að ákveðið hefði verið að setja Evrópumálin í hendur Alþingis. Um leið væri þó tryggður þingræðislegur jarðvegur fyrir þetta afdrifaríka mál.
Hann sagði síðan að Íslendingar ættu að varast að eyða öllum sínum kröftum í þetta mál og ekki trúa á ESB-aðild sem einfalda og sársaukalausa lausn á öllum sínum vanda. „Vandi Íslendinga verður aðeins leystur á Íslandi," sagði Steingrímur. „Við þurfum að vinna verkin sjálf, það mun enginn gera fyrir okkur og það mun enginn gefa okkur neitt," sagði hann.