Íslenska sendiráðið í París flytur í vikunni í minna og mun ódýrara húsnæði, en það hefur verið í. Að sögn Estridar Brekkan sendiráðunauts, er flutningur liður í sparnaðaraðgerðum í íslensku utanríkisþjónustunni.
„Það er mikill sparnaður að þessu," segir Estrid í samtali við mbl.is. „Við erum að fara í hentugra húsnæði sem er bæði minna og ódýrara þannig að það gæti varla verið betra."Nokkur aðdragandi hefur verið að flutningunum að hennar sögn. „Menn eru búnir að velta því lengi fyrir sér að skipta um húsnæði, en þetta er liður í sparnaði í utanríkisþjónustunni."
Hún bætir því að nýi staðurinn sé í grennd við gamla sendiráðið, og verður nýja heimilisfangið 52, Avenue Victor Hugo, 75116 Paris, en næsta neðanjarðarlestarstöð er Victor Hugo.
Von er á flutningamönnum á morgun og hinn, svo búast má við einhverri röskun á starfsemi sendiráðsins næstu daga. Estrid segir þó að reynt verði að leysa aðkallandi mál og getur fólk þá hringt í starfsmenn í símum 06 07 71 87 57 og 06 31 37 05 98 en sé hringt utan Frakklands er landsnúmerið 33. „Það verður lokað á fimmtudag vegna frídags en við ætlum að reyna að hafa eðlilega starfsemi, meira og minna hér á föstudaginn. Þetta á að ganga fljótt og örugglega fyrir sig."