„Þurfi að grípa til frekari aðgerða til að tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna þessa lands, þá munum við grípa til slíkra aðgerða. Við tökumst á við kjaraskerðinguna og eignarýrnunina með því að efla hér atvinnulífið og auka þannig hagvöxt og kaupmátt á ný," sagði Jóhanna Sigurðarsdóttir, forsætisráðherra á Alþingi í kvöld þegar hún flutti stefnuræðu sína.
„Á sama tíma verðum við að standa vörð um þá sem lökust hafa kjörin, fyrir þá þarf öryggisnetið að virka best á tímum sem þessum."
Opni fyrir erlenda eignaraðild
Hún sagði mikilvægt að huga að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs í alþjóðlegum samanburði. Afar mikilvægt væri að byggt verði á þeim grundvallarmarkmiðum að ríkið losi sig svo fljótt sem kostur er út úr hvers kyns samkeppnisrekstri og opni fyrir erlenda eignaraðild. Auka þurfi traust og trú á íslenskt efnahagslíf, örva innlendar fjárfestingar í atvinnulífinu, stuðla að beinum erlendum fjárfestingum og koma á eðlilegum lánaviðskiptum við erlenda banka.
„Atvinnulífið er og verður megingrundvöllur velferðar hér á landi. Ríkisstjórnin mun því með markvissum aðgerðum draga úr atvinnuleysi, útrýma langtímaatvinnuleysi og skapa traustari grundvöll fyrir íslenskt atvinnulíf til framtíðar," sagði Jóhanna.
Hún sagði, að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að mótuð verði heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland þar sem lögð sé áhersla á fjölbreytt atvinnulíf, jafnan en stöðugan hagvöxt, nýsköpun og sjálfbæra nýtingu til lands og sjávar.