Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi ríkisstjórnarflokkana harðlega í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. Sagði hann að Samfylkingin væri valdsækin og ríkisstjórnin safnaði völdum í eigin hendur.
Sagði Sigmundur Davíð, að þrautalending ríkisstjórnarinnar, í vandræðaganginum í Evrópumálunum hefði verið að ræsa spunavélina og halda því fram, að það bæri vott um lýðræðisást og vilja til að gefa þinginu meira vald að láta málið vera óafgreitt og leyfa þingmönnum að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni.
Það væri gott og blessað ef hugur fylgdi máli, sagði Sigmundur Davíð, og rifjaði upp viðbrögð stjórnarflokkanna þegar einn þingmaður Framsóknarflokksins vildi bíða í tvo daga eftir meiri upplýsingum í seðlabankafrumvarpinu í vetur. Þá hefði Samfylkingin gersamlega farið af límingunum og verið tilbúin til að taka löggjafarþingið í gíslingu vegna þess að einn þingmaður fylgdi sannfæringu sinni.
Þá rifjaði Sigmundur Davíð upp ræðu sem Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, hélt á síðasta ári um mikilvægi þess að treysta stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu og minnihlutans gagnvart meirihlutanum. Nú þegar VG væri í ríkisstjórn og meirihluta á Alþingi og núverandi ríkisstjórn ynni markvisst að því, að einangra hjá sér vald og svipta stjórnarandstöðuna sem flestum stöðum. Hefði stjórnin keypt nýjasta stjórnmálaflokkinn til liðs við sig til að ná enn fleiri nefndarsætum af stjórnarandstöðunni.
Sigmundur Davíð gagnrýndi einnig þær aðgerðir, sem ríkisstjórnin hefði gripið til vegna efnahagsvandans. Sífellt fleiri gerðu sér grein fyrir því, að skuldaaðlögun væri óhjákvæmileg en ríkisstjórnin héldi áfram að berja höfðinu við steininn enda mætti ekki ræða tillögur utanstjórnarflokka.
Hann sagði ríkisstjórnina úr tengslum við ástandið og hún væri svo upptekin við að fagna sögulegri valdatöku vinstrimanna, að hún muni ekki til hvers hún var kosin. Öll svokölluð ráð hennar snérust um að fresta vandanum.