Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld, að hann hefði í nokkurn tíma verið þeirrar skoðunar að fyrr eða síðar þurfi þjóðin að skera úr um mögulega aðild Íslendinga að Evrópusambandinu.
„Ég vil þó vara sérstaklega við því að stjórnmálamenn spili stöðugt upp meiri væntingar með þjóðinni um þann mögulega aðildarsamning sem okkur stendur til boða. Hæstvirtur forsætisráðherra leikur þann leik hér í kvöld, lofar lægri vöxtum strax og aðildarumsókn liggur frammi, segir samningsstöðu okkar á sviði sjávarútvegs sterka og engan geta sagt til um niðurstöðu samninga um sjávarútveg.
Á hvaða forsendum segir hæstvirtur forsætisráðherra að samningsstaða okkar sé sterk á sviði sjávarútvegsmála? Jú, vegna þess að við höfum 200 sjómílna landhelgi. Hvað er átt við?" sagði Bjarni og bætti við að það væri óábyrgt að gefa í skyn að í grunninn bíði Íslendinga eitthvað annað í aðildarviðræðum en sú stefna sem Evrópuþjóðirnar hafa nú þegar komið sér saman um.
Hann sagðist telja, að það hefði verið nær að leita breiðrar samstöðu um þetta mál áður en ríkisstjórnin gaf yfirlýsingar um að umsókn verði að fara héðan í júní eða júlí. „Nú er sagt að samráð sé haft við aðra flokka. Hvers konar samráð er það, að ákveða fyrst hvernig málið verði afgreitt og hvenær og kalla síðan aðra að borðinu?" sagði Bjarni.
Lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dregst
Bjarni sagði einnig, að sá trúverðugleiki, sem fylgja átti samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sé í ákveðnu uppnámi. Sjóðurinn dragi svo mánuðum skiptir afgreiðslu á láninu, sem um var samið. Þetta virðist vera til vitnis um að stjórnvöld séu að bregðast samningsbundnum skyldum sínum gagnvart sjóðnum.
„Nú dugar ekki lengur fyrir hæstvirtan fjármálaráðherra að vísa í að ríkisstjórnin sem sat hér þarsíðast eigi sök á töfinni eins og hann hefur jafnan gert þegar málið ber á góma í þinginu," sagði Bjarni.