Norrænu samstarfsráðherrarnir hafa ákveðið að gera breytingar á Norræna þróunarsjóðnum (NDF). Hann verður framvegis nýttur til að fjármagna verkefni sem stuðla að fyrirbyggjandi og uppbyggjandi verkefnum í þróunarríkjunum sem miða að því að draga úr gróðurhúsaáhrifum.
„Með nýjum áherslum há Norræna þróunarsjóðnum munu Norðurlönd geta nýtt sérþekkingu sína í umhverfismálum til að veita aðstoð þar sem hennar er helst þörf. Jafnframt sýnum við heiminum að Norðurlönd eru svæði í fararbroddi í heiminum og að þau láta sig varða brýnustu viðfangsefni heimsins.“ Þetta segir Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í tilkynningu.
Hugmyndafræðin á bak NDF hefur alla tíð verið að efla með hagstæðum lánum efnahagslega og félagslega uppbyggingu. Sjóðurinn hefur frá árinu 1989 veitt hagstæð lán til um það bil 190 þróunarverkefna sem fallið hafa að norrænum áherslum.
Framvegis verður sjóðurinn rekinn með endurnýjað umboð. Ákveðið var að árlegar endurgreiðslur næstu 35 árin verði nýttar til að vinna gegn koltvísýringslosun í fátækustu ríkjum heims. Reiknað er með að lánsfé verði um einn milljarður evra.