Hátt í 70 sumarhúsalóðir á uppboð

Sumarhúsabyggð í Grímsnesi.
Sumarhúsabyggð í Grímsnesi. Kristinn Benediktsson

Uppboð á 66 sumarhúsalóðum í Grímsnes- og Grafningshrepp hefst hjá embætti Sýslumannsins á Selfossi næstkomandi mánudag. Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir þetta eina uppboð þó ekki endilega um vísbendingu um aukningu, þar sem að þær eru allar í eigu sama aðila.

„Árið 2007 buðum við einhvern daginn upp á fjórða tug bústaða,“ segir hann. „En þetta er engu að síður með því stærra sem gerist í einu lagi og uppboðum fer greinilega fjölgandi.“ Hann segir embættið ekki hafa upplýsingar um hvort fleiri hundruð sumarbústaðalóða séu á leið á uppboð á næstu mánuðum.

Tölurnar yfir uppboð sumarhúsalóða í ár og fyrra virðast þó gefa til kynna að svo geti orðið, en uppboð embættis Sýslumannsins á Selfossi fyrir 2008 og það sem að af er 2009 eru farin að nálgast þriðja hundrað.

Sumarhúsalóðirnar sem að auglýstar voru í dag tilheyra allar frístundabyggð í landi Syðri Seyðishóla í Grímsnesi og gefa fasteignanúmer þeirra, að sögn Ólafs Helga, til kynna að engir bústaðir standi í dag á lóðunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert