Fréttaskýring: Kreppan gæti birst á næsta ári

Skemmtiferðaskipið Grand Princess á Akureyri í fyrra.
Skemmtiferðaskipið Grand Princess á Akureyri í fyrra. mbl.is/Skapti

Efnahagskreppan í heiminum er enn ekki farin að hafa áhrif á ferðir með skemmtiferðaskipum á norðurslóðum. Bókanir í skipin í Evrópu voru 103% á síðasta ári og 101% í ár. Hins vegar gætu áhrifin komið fram á næsta ári í minnkandi eftirspurn á markaðnum í Evrópu.

Þetta kom m.a. fram á fundi sem samtökin Cruise Iceland stóðu fyrir í Hafnarfirði fyrir helgi um efnahagsleg áhrif af komum skemmtiferðaskipa til Íslands. Hafa þau áhrif aukist jafnt og þétt síðustu árin, líkt og vöxtur í þessari tegund ferðamennsku hefur borið með sér í Evrópu og víðar í heiminum.

Aðalframsögumaður var Bretinn Peter Wild, sem á og rekur rannsóknar- og ráðgjafarfyrirtæki er sérhæfir sig í verkefnum tengdum skemmtiferðaskipum og áhrifum af rekstrinum á hagkerfi borga og landa. Í erindi sínu fjallaði Wild um þróun og framtíðarsýn greinarinnar en um þessar mundir liggja fyrir pantanir á um 40 skemmtiferðaskipum hjá evrópskum skipasmíðastöðvum. Áætlað er að afhenda skipin á næstu þremur árum.

Fram kom hjá Wild að stór hluti farþeganna í Evrópu er ellilífeyrisþegar, vel menntað fólk sem var með háar tekjur. Í Bandaríkjunum er meðalaldurinn lægri, m.a. vegna siglinga í Karíbahafinu.

Eyða um 380 milljónum hér

Kannanir hér á landi hafa sýnt að hver farþegi verslar að jafnaði í landi í Reykjavík fyrir 6.300 krónur. Eru þá kaup á skoðunarferðum ekki talin með en yfirleitt fara 80-85% farþega í slíkar ferðir. Miðað við um 60 þúsund farþega yfir árið má reikna með að þeir eyði um 380 milljónum króna í beinni neyslu í höfuðborginni. Eru viðkomur í aðrar hafnir landsins þá ekki taldar með.

Ágúst Ágústsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, segir skemmtiferðaskipin bóka í ferðir tvö ár fram í tímann. Eitthvað hafi verið um forföll fyrir þetta sumar en fyrirtækin hafi fyllt í þau pláss með því að slá af fargjöldunum. Því megi reikna með tapi hjá fyrirtækjunum í ár.

„Menn gera það varla aftur á næsta ári, þannig að annaðhvort leggja menn skipunum eða fara út í einhverjar aðgerðir til að spara í rekstrinum. Það þýðir lítið að flytja skipin yfir í aðrar heimsálfur því alls staðar er kreppa,“ segir Ágúst.

Í hnotskurn
» Alls er búist við um 50 skemmtiferðaskipum í 80 heimsóknum til Reykjavíkur í sumar. Er það svipað og síðasta sumar.
» Skipakomur til Ísafjarðar verða um 30, um 60 til Akureyrar, 17 til Seyðisfjarðar, 17 til Vestmannaeyja og líkast til 11 til Grundarfjarðar. Flest fara skipin hringinn í kringum landið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert