„Þær efnahagslegu þrengingar sem íslenska þjóðin gengur nú í gegnum eiga
sér líklega fá fordæmi. Til að bregðast við verður að draga verulega úr
útgjöldum ríkisins, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Því þurfum
við að leita allra leiða til að ná niður kostnaði í hinu opinbera kerfi
og helst án þess að skerða þjónustuna." Þetta kom fram í ávarpi Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á ráðstefnu UT-dagsins, dags upplýsingatækninnar, sem haldin er í dag.
Sagði Jóhanna markmiðið að þróa með endurskipulagningu og hagræðingu betri þjónustu fyrir minna fé.
„Ég vil að ríkisstjórnin fari fyrir með góðu fordæmi og hagræði og bæti þjónustuna um leið. Við eigum að endurskipuleggja ráðuneyti og stofnanir þannig að þær þjóni almenningi og fyrirtækjum sem best og veiti sveigjanlega og góða þjónustu fyrir minni fjármuni. Ég vil byggja á víðtæku samráði og samvinnu um hagræðingu í stjórnkerfinu, með þátttöku stjórnenda, starfsfólks og notendum þjónustunnar.
Framundan er gríðarlega vandasamt verkefni, jafnvel það erfiðasta sem við höfum nokkru sinni staðið frammi fyrir. Þar er mikilvægt að hlýða á sjónarmið og raddir sem flestra og því er þessi ráðstefna sem skipulögð er í dag mikilvægt skref á þeirri vegferð sem við erum nú að hefja," sagði Jóhanna.
Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur í heild