Bifhjólum í umferð hér á landi hefur fjölgað gífurlega á undanförnum árum. Í árslok árið 2000 voru 2.278 bifhjól skráð hér á landi, en í lok síðasta árs voru þau 9.009. Alvarlega slösuðum bifhjólamönnum hefur einnig fjölgað mikið á sama tímabili.
Umferðarráð vill minna á sívaxandi hóp fólks sem notar reiðhjól sem samgöngutæki og hjólar eftir götum eins og lög segja til um. Nú eru yfir 7000 þátttakendur í keppninni „Hjólað í vinnuna".
Ökumenn bifreiða eru hvattir til að virða rétt þeirra og sýna tillitssemi. Reiðhjól eru ökutæki í umferðinni sem fara oftast hægar en bifreiðar. Ökumenn bifreiða þurfa að gefa reiðhjólafólki nægjanlegt rými þegar þeir taka framúr. Þar sem aðstæður á götum eru þröngar eiga bílstjórar að bíða með framúrakstur þar til það er öruggt.
Hjólreiðamönnum ber að sýna annarri umferð fulla tillitssemi og hleypa hraðskreiðari umferð framúr, þegar það er óhætt. Ennfremur að virða forgangsrétt gangandi vegfarenda á gangstéttum og á blönduðum útivistarstígum, að því er segir í ályktun Umferðarráðs.