Ætla má að erlendir ferðamenn sem koma til landsins til að stunda sjóstangaveiðar á yfir 40 bátum frá Vestfjörðum skilji eftir um milljarð króna í þjóðarbúinu. Fyrirtækin Hvíldarklettur á Suðureyri og Sumarbyggð í Súðavík eru umsvifamikil í þessari starfsemi og gera út frá sex stöðum. Bæði gera þau upp í evrum og hefur hagur þeirra vænkast með veikri stöðu krónunnar. Þá hafa þau bæði hækkað verð frá síðasta ári.
Hvíldarklettur á Suðureyri gerir út 22 báta, 11 frá Suðureyri og sama fjölda frá Flateyri. Fyrirtækið er einnig með gistingu á báðum stöðunum. Elías Guðmundsson framkvæmdastjóri segir að alls nýti um þrjú þúsund manns gistiaðstöðu fyrirtækisins, en hátt í helmingur komi til að stunda sjóstangaveiðar.
„Fjöldinn sem kemur til að veiða á okkar vegum í ár er eitthvað minni en í fyrra,“ segir Elías. „Á móti kemur að við höfum hækkað verð talsvert frá því í fyrra, en allt okkar kerfi byggist á evru, annað er ekki mögulegt eins og mál standa. Þessi verðhækkun er kannski ástæðan fyrir fækkun hjá okkur, en afkoman verður betri í ár og við reiknum með að tekjur aukist um 200%,“ segir Elías.Fyrstu veiðimennirnir á vegum Hvíldarkletts komu í byrjun mánaðarins. Þjóðverjar hafa verið í meirihluta gesta fyrirtækisins á síðustu árum, en í ár verður breyting þar á. Fyrirtækið hefur aflað nýrra markaða og Tékkar og Pólverjar verða áberandi í hópi veiðimanna í sumar, en einnig Svíar og Danir auka Þjóðverja. „Þeir sem koma til okkar frá Póllandi og Tékkandi virðast hafa meira á milli handanna en Þjóðverjarnir sem hingað hafa komið,“ segir Elías.