Skiptar skoðanir um eignaumsýslufélag

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Afar skipt­ar skoðanir komu fram á Alþingi í dag þegar mælt var fyr­ir frum­varpi um eignaum­sýslu­fé­lög, sem á að taka yfir illa stödd fyr­ir­tæki, sem sinna svo mik­il­væg­um al­manna eða ör­ygg­is­hags­mun­um að stöðvun þeirra myndi valda veru­legri rösk­un í þjóðfé­lag­inu öllu.

Sam­kvæmt frum­varp­inu  er um að ræða tíma­bundið úrræði og er gert ráð fyr­ir því að fé­lög­in verði seld um leið og markaðsaðstæður leyfa og fé­lagið lagt niður þegar mark­miðum þess hef­ur verið náð.

Frum­varpið var lagt fram á síðasta þingi en var þá ekki af­greitt. Þó það sé í aðaltriðum óbreytt nú eru þó lagðar til nokkr­ar breyt­ing­ar vegna at­huga­semda sem fram komu í nefndarálit­um efna­hags- og skatta­nefnd­ar.

Við umræðurn­ar í dag gagn­rýndu þing­menn úr Fram­sókn­ar­flokki og Sjálf­stæðis­flokki frum­varpið og sögðu rík­is­stjórn­ina ganga þvert á þá stefnu stjórn­ar­inn­ar að ætla að hafa sem mest sam­ráð við sam­tök á vinnu­markaði. Tryggvi Þór Her­berts­son, Sjálf­stæðis­flokki, sagði reynslu annarra þjóða af stofn­un sam­bæri­legra fé­laga um björg­un­araðgerðir vegna fyr­ir tækja slæma og ekki gefa til­efni til bjart­sýni. 

Birk­ir Jón Jóns­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, spurði m.a. hvort rík­is­stjórn­in telji það ekki  koma til greina að hleypa ein­hverj­um öðrum en rík­inu að þessu fyr­ir­tæki,  þannig að aðkoma sem flestra verði tryggð, „svo við þurf­um ekki að horfa upp á það að það verði á vett­vangi  stjórn­mál­anna, sem menn gera upp hluti í ís­lensku efna­hags­lífi. Ætlum við í al­vör­unni að setja ís­lenskt sam­fé­lag ára­tugi aft­ur í tím­ann?" spurði Birk­ir Jón.

„Ég er ekki að mæla fyr­ir þessu frum­varpi af neinni sér­stakri ánægju held­ur  af brýnni þörf vegna aðstæðna sem  upp eru komn­ar í okk­ar sam­fé­lagi og  við verðum að horf­ast í augu við," sagði Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, fjár­málaráðherra.

„Það  er mik­ill fjöldi fyr­ir­tækja bæði stórra  og smárra og þar á meðal mörg mjög þjóðhags­lega mik­il­væg fyr­ir­tæki sem eiga í erfiðleik­um. Bank­arn­ir hafa verið að yf­ir­taka þau hvert á fæt­ur öðru á und­an­förn­um dög­um og þetta er bara spurn­ing um fyr­ir­komu­lag og hvers kon­ar tæki eru ár­ang­urs­rík­ust í þeirri glímu við þessa erfiðleika sem við þurf­um að vinna okk­ur út úr. Og hvernig svona at­vinnu­starf­semi verður best komið á fæt­ur á nýj­an leik og hún sett út í lífið. Það er ekki mark­miðið að ríkið eigi þetta leng­ur en óumflýj­an­legt er og það er bitamun­ur en ekki fjár vort eign­ar­haldið er tíma­bundið í hönd­um banka í eigu rík­is­ins eða sér­hæfðs fyr­ir­tæk­is sem sér­hæf­ir sig í að end­ur­skipu­leggja fyr­ir­tæk­in og koma þeim aft­ur á markað," sagði Stein­grím­ur J. Sig­fús­son fjár­málaráðherra.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert