Skiptar skoðanir um eignaumsýslufélag

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Afar skiptar skoðanir komu fram á Alþingi í dag þegar mælt var fyrir frumvarpi um eignaumsýslufélög, sem á að taka yfir illa stödd fyrirtæki, sem sinna svo mikilvægum almanna eða öryggishagsmunum að stöðvun þeirra myndi valda verulegri röskun í þjóðfélaginu öllu.

Samkvæmt frumvarpinu  er um að ræða tímabundið úrræði og er gert ráð fyrir því að félögin verði seld um leið og markaðsaðstæður leyfa og félagið lagt niður þegar markmiðum þess hefur verið náð.

Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en var þá ekki afgreitt. Þó það sé í aðaltriðum óbreytt nú eru þó lagðar til nokkrar breytingar vegna athugasemda sem fram komu í nefndarálitum efnahags- og skattanefndar.

Við umræðurnar í dag gagnrýndu þingmenn úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki frumvarpið og sögðu ríkisstjórnina ganga þvert á þá stefnu stjórnarinnar að ætla að hafa sem mest samráð við samtök á vinnumarkaði. Tryggvi Þór Herbertsson, Sjálfstæðisflokki, sagði reynslu annarra þjóða af stofnun sambærilegra félaga um björgunaraðgerðir vegna fyrir tækja slæma og ekki gefa tilefni til bjartsýni. 

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði m.a. hvort ríkisstjórnin telji það ekki  koma til greina að hleypa einhverjum öðrum en ríkinu að þessu fyrirtæki,  þannig að aðkoma sem flestra verði tryggð, „svo við þurfum ekki að horfa upp á það að það verði á vettvangi  stjórnmálanna, sem menn gera upp hluti í íslensku efnahagslífi. Ætlum við í alvörunni að setja íslenskt samfélag áratugi aftur í tímann?" spurði Birkir Jón.

„Ég er ekki að mæla fyrir þessu frumvarpi af neinni sérstakri ánægju heldur  af brýnni þörf vegna aðstæðna sem  upp eru komnar í okkar samfélagi og  við verðum að horfast í augu við," sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

„Það  er mikill fjöldi fyrirtækja bæði stórra  og smárra og þar á meðal mörg mjög þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem eiga í erfiðleikum. Bankarnir hafa verið að yfirtaka þau hvert á fætur öðru á undanförnum dögum og þetta er bara spurning um fyrirkomulag og hvers konar tæki eru árangursríkust í þeirri glímu við þessa erfiðleika sem við þurfum að vinna okkur út úr. Og hvernig svona atvinnustarfsemi verður best komið á fætur á nýjan leik og hún sett út í lífið. Það er ekki markmiðið að ríkið eigi þetta lengur en óumflýjanlegt er og það er bitamunur en ekki fjár vort eignarhaldið er tímabundið í höndum banka í eigu ríkisins eða sérhæfðs fyrirtækis sem sérhæfir sig í að endurskipuleggja fyrirtækin og koma þeim aftur á markað," sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert