Á fundi borgarstjórnar í dag var samþykkt tillaga Svandísar Svavarsdóttur um miðstöð fyrir ungt fólk í atvinnuleit.
Var samþykkt að leita eftir samstarfi við Lýðheilsustöð, Rauða krossinn og menntamálaráðuneytið með það að markmiði að fá Austurbæjarbíó að láni og starfrækja þar mistöð fyrir ungt fólk í atvinnuleit. Húsið verður opið í sumar en mögulega lengur ef vel gengur.
Markmiðið með þessu er að virkja frumkvæði og sköpunarkraft ungmenna í Reykjavík með því að skapa þeim vettvang til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Þannig fá ungmennin tækifæri til að blása lífi í Austurbæjarbíó og byggja upp starfsemi þar út frá eigin hugðarefnum og áhugamálum. Þar geta jafnframt sprottið upp hugmyndir sem ekki endilega þarf að vinna í húsinu, möguleg atvinnusköpun, sjálfboðaliðaverkefni, stofnun grasrótarhópa, hljómsveita, leik- og danshópa og fleira.