„Þjóðin viti hvað er í boði“

„Ég met það svo að það sé meirihluti fyrir því að það verði farið í aðildarumsókn þannig að þjóðin viti hvað er í boði að því er varðar aðild að Evrópusambandinu. Ég held að það sé lykilatriði,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

„Bara það að sækja um aðild tel ég að muni færa okkur í átt til stöðugleikans. Við erum þá með vegvísi sem alþjóðasamfélagið tekur eftir og hér innanlands líka. Þannig að það eitt að sækja um held ég að muni strax styrkja okkur að því er varðar stöðugleikann,“ segir forsætisráðherra.

Þingflokkarnir munu nú ræða þingsályktunartillögu ríkisstjórnarflokkanna  um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Jóhanna vonast til þess að Alþingi muni svo fjalla um tillöguna öðru hvoru megin við næstu helgi.

„Síðan fer hún til afgreiðslu í sérstakri Evrópunefnd, væntanlega, og fer svo til umsagnar ýmissa aðila áður en hún fer til atkvæðagreiðslu á þinginu,“ segir Jóhanna og bætir við að það sé stefnt að því afgreiða tillöguna á þessu þingi.

„Hún ætti að vera send héðan í júlímánuði og tekin fyrir væntanlega fljótlega hjá Evrópusambandinu og á fundi þeirra í desember nk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert