20 prósenta aukning á útflutningi búslóða

Flutningar Samskipa á búslóðum frá Íslandi hafa aukist um 20 prósent frá áramótum miðað við sama tíma í fyrra.

Á sama tímabili hefur flutningur á varningi til landsins minnkað um 40 til 50 prósent, að því er Pálmar Magnússon, framkvæmdastjóri millilandasviðs Samskipa, greinir frá.

„Samdrátturinn hefur verið gríðarlegur miðað við sama tíma í fyrra. Við erum að sigla til Reykjavíkur með bara eitt skip í viku en við vorum með tvö skip í viku þar til síðastliðið haust,“ segir Pálmar.

Spurður að því hvort samdrátturinn hafi leitt til fjölda uppsagna segir Pálmar að þegar um mitt síðasta ár hafi Samskip byrjað að fækka starfsfólki.

„Það hefur ekki verið í stórum stíl, heldur bara jafnt og sígandi en ekkert síðustu mánuði.“

Þótt Helgafellið hafi í gær komið hlaðið gámum til Reykjavíkur er það ekki vísbending um að innflutningur á varningi sé að aukast, að sögn Pálmars.

„Þetta er árstíðabundin aukning og bara í takt við það sem við höfum séð á þessum árstíma. Flutningar eru meiri á vorin en fyrstu mánuði ársins,“ segir Pálmar sem getur þess að útflutningur á vörum héðan sé svipaður og verið hefur undanfarin ár. Svo virðist sem margir hafi ákveðið að freista gæfunnar erlendis miðað við þá aukningu sem orðið hefur á búslóðaflutningum héðan.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert