Baugsmálinu ekki vísað frá

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. Morgunblaðið/Kristinn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur synjað frávísunarkröfu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar, Kristínar Jóhannesdóttur auk Baugs Groups og Fjárfestingafélagsins Gaums á Baugsmálinu. Það varð ljóst í Héraðsdómi Reykjvíkur nú í morgun, samkvæmt vef Vísis. Það fékkst ekki staðfest í Héraðsdómi þar sem tölvukerfið lá niðri.

Frávísunarkrafan í þessu Baugsmáli, sem telst til skattahluta þess fyrra, var fyrst tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 25. febrúar. Sakarefnið er meiriháttar brot gegn skattalögum á árunum 1998 til 2002.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá 26. febrúar hófst rannsókn á bókhaldi og skattskilum Baugs í nóvember 2003 og fékk Baugur afhenta endurálagningu frá ríkisskattstjóra fyrir árin 1998 til 2002 hinn 31. desember 2004. Baugur greiddi 142 milljónir króna í janúar 2005 vegna þessa. Jón Ásgeir og Kristín kærðu rannsókn málsins en höfðu ekki erindi sem erfiði. Dómarar bæði í héraði og Hæstarétti töldu kæruna of seint fram komna þar sem rannsókn málsins var lokið og dómsmeðferð að hefjast. Var málum þeirra því vísað frá.

Hvorki náðist í Gest Jónsson, verjanda Jóns Ásgeirs, né Helga Magnús Gunnarsson, saksóknara Ríkislögreglustjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert