Björn nýr formaður Samtaka um vestræna samvinnu

Björn Bjarnason
Björn Bjarnason Frikki

Björn Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, var á aðalfundi Samtaka um vestræna samvinnu (SVS) í vikunni kjörinn nýr formaður samtakanna. Tekur hann við formannsstarfinu af Jóni Hákoni Magnússyni sem ekki óskaði eftir endurkjöri.

 Ákveðið var á aðalfundinum að breyta heiti samtakanna í Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál (SVS). Með breytingunni vildu fundarmenn árétta, að hlutverk félagsins miðar ekki aðeins að því að ræða utanríkis- og öryggismál vegna aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu heldur þróun alþjóðamála í víðtæku samhengi. Samkvæmt lögum samtakanna er tilgangur þeirra að efla skilning á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta og vinna að kynningu á samstarfi og menningu þjóða, sérstaklega störfum og stefnu Atlantshafsbandalagsins, að því er segir í tilkynningu.

Jón Hákon flutti skýrslu fráfarandi stjórnar og gerði grein fyrir fjölmörgum fundum á vegum samtakanna undanfarin ár bæði með innlendum og erlendum ræðumönnum auk málþinga um einstök viðfangsefni. Þá minntist hann 60 ára afmælis NATO fyrr á þessu ári og 50 ára afmælis SVS á síðasta ári. Í tilefni af þessum tímamótum samþykkti aðalfundurinn að heiðra minningu Péturs Benediktssonar, sendiherra og bankastjóra, sem hafði forystu um að stofna SVS á sínum tíma og var fyrsti formaður samtakanna.

Fyrsta konan í stjórn samtakanna

Aðalfundurinn samþykkti jafnframt að fækka stjórnarmönnum SVS úr tíu í fimm og eru þeir nú auk Björns Bjarnasonar: Eiður Guðnason, fyrrv. sendiherra og ráðherra, Gylfi Sigurjónsson, fyrrv. framkvæmdastjóri, Kjartan Gunnarsson, lögfræðingur, og Þórunn J. Hafstein, lögfræðingur. Þórunn er fyrsta konan sem tekur sæti í stjórn samtakanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert