Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, hefur stofnað sérstakt svæðisfélag á Suðurlandi. Eyþór Arnalds bæjarfulltrúi er í bráðabirgðastjórn félagsins. Sigurður Ingi Jóhannsson, þingismaður Framsóknarflokksins, segir þingsályktun stjórnarinnar um ESB ganga gegn stefnu þingflokksins.
Ákvörðunin um stofnunina var tekin á opnum fundi sem samtökin héldu í Þingborg á Selfossi síðastliðið þriðjudagskvöld.
Í tilkynningu frá félaginu segir að á fundinum hafi komið fram „áhugi á að leggja lið baráttunni fyrir áframhaldandi fullveldi Íslands sem og áhyggjur fundarmanna af stöðu mála undir núverandi ríkisstjórn“.
Frummælendur á fundinum voru fulltrúar frá samtökunum Nei til EU í Noregi og fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka, Sigurður Ingi Jóhannsson alþingismaður frá Framsóknarflokki, Atli Gíslason alþingismaður frá VG og Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi frá Sjálfstæðisflokki.
Í tilkynningunni segir:
„Fram kom í máli Dag Seierstad sem er norskur sérfræðingur í málefnum Evrópusambandsins að í samningaviðræðum við ESB fengu Norðmenn engar varanlegar undanþágur frá regluverki ESB. Það hafi heldur ekki verið niðurstaðan við inntöku annarra landa og engar líkur geti talist á að Ísland breyti meginreglum ESB.
Fulltrúar stjórnmálaflokkanna töluðu gegn aðild og fram kom í máli Sigurðar Inga að nýlega framkomin þingsályktunartillaga gengi gegn flokkssamþykkt Framsóknar og fengi því ekki stuðning þingamanna flokksins.
Í lok fundarins í Þingborg var skipuð bráðabirgðastjórn fyrir aðildarfélag Heimssýnar á Suðurlandi. Hana skipa eftirtaldir; Eyþór Arnalds bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri í Árborg, Guðni Ágústsson fv. ráðherra, Selfossi, Þór Hagalín framkvæmdastjóri Eyrarbakka, Sigurlaug B. Gröndal skrifstofumaður Þorlákshöfn og Axel Þór Kolbeinsson tölvumaður Hveragerði.“