Hnúfubak rak að landi við Norðurkot í Sandgerði. Reynir Sveinsson, forstöðumaður Fræðasetursins í Sandgerði, segir að dýrið, sem er um 10-11 metra langt, sé dautt. Stefnt er að því að draga dýrið út á sjó á morgun. „Hann er á mjög viðkvæmu svæði beint niður af æðarvarpinu,“ segir Reynir.
„Það verða settar á hann stroffur í kvöld svo verður hann dreginn og fjarlægður á flóðinu á morgun,“ segir Reynir ennfremur í samtali við mbl.is.
„Hann var á reki hérna í gær og þá var tilkynnt að hann væri hættulegur. Og svo fékk ég tilkynningu í morgun að hann væri á reki norður með og svo kom hann bara hérna upp í fjöru á versta stað í bænum.“
Búið er að láta Umhverfisstofnun og Hafrannsóknarstofnun vita af málinu.