„Ég prófaði þetta fyrst á kálfi og hann bráðlifnaði við,“ sagði Kjartan Magnússon, bóndi í Hjallanesi 2 í Rangárþingi ytra. Hann hefur gefið líflitlum lömbum og kálfi sprengitöflur sem ætlaðar eru hjartasjúklingum. Ungviðið hefur flest tekið fljótt við sér eftir töflugjöfina.
„Ég hef bjargað nokkrum lömbum og einum kálfi. Ég byrjaði á þessu í vor með lömbin en kálfurinn er lifandi síðan í haust,“ sagði Kjartan. Um er að ræða útrunnar sprengitöflur af sömu gerð og sumir hjartasjúklingar ganga með í vasanum. Töflurnar fékk Kjartan hjá fullorðinni konu sem sagði að þær væru orðnar svo gamlar að þær mætti kannski prófa á kálfum.
„Þau eru mismikið dauð, eins og þar segir. En þetta getur örugglega bjargað einhverjum – það er nokkuð ljóst,“ sagði Kjartan. „Það er engin fræðimennska á bak við þetta. Bara fikt.“