Repja framtíðareldsneyti fiskiskipaflotans

Ræktunin lofar góðu eins og meðfylgjandi mynd sýnir, en hana …
Ræktunin lofar góðu eins og meðfylgjandi mynd sýnir, en hana tók Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum.

Repjuræktun gengur vel á vegum Siglingastofnunar og ef vel tekst til gætu Íslendingar með tímanum ef til vill orðið sjálfum sér nógir um eldsneytisolíu á fiskiskipaflota landsmanna. Siglingastofnun vinnur nú að rannsóknarverkefni um umhverfisvæna orkugjafa.

Jón Bernódusson verkfræðingur hjá stofnuninni hefur haft veg og vanda af verkefninu, en það er unnið í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands. Sú leið var valin að skoða möguleika á ræktun á vetrarrepju hér á landi en erlendis hefur þessi ræktun gefið góðan árangur, að því er segir á vef Siglingastofnunar.

Repjujurtina má nota sem fóðurplöntu og jurtaolíugjafa og ef vel gengur má nota hana til að framleiða eldsneytisolíu en aukaafurðina, repjuhratið, mætti nota í dýrafóður eins og víða er gert.

„Verkefnið gerir ráð fyrir að vetrarrepjan sé ræktuð á annars ónýttu landsvæði og komi þannig ekki í stað matvælaræktunar. Ef vel tekst til gætu Íslendingar með tímanum ef til vill orðið sjálfum sér nógir um eldsneytisolíu á fiskiskipaflota landsmanna og heyjað sér árlegan orkuforða á gulblómstrandi repjubreiðum. Þar sem jurtir binda í sér kolefni við ljóstillífun væri vandi sá sem talinn er stafa af koltvísýringi í andrúmslofti sem til er kominn vegna útblásturs véla leystur með þessari aðferð við orkuöflun," að því er fram kemur á vef Siglingastofnunar.

Verklegar tilraunir hófust síðsumars í fyrra þegar vetrarrepju var í samstarfi við bændur plantað í tíu akra víðsvegar um landið.  Ef fram fer sem horfir verður í haust hægt að uppskera repjuplöntur af íslenskum tilraunaökrum og gera samanburð á afurðum þeirra miðað við þær erlendu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert