Stafir lífeyrissjóður mun skerða greiðslur til lífeyrisþega um 6%. Þetta var samþykkt á aðalfundi sjóðsins í gær.
Hrein eign sjóðsins minnkaði um rúma sex milljarða í fyrra eða um 7,7%. Þá kom fram á fundinum að fyrirtækjaskuldabréf í eigu sjóðsins eru enn metin á tæpa 9,3 milljarða.
Í kynningu Ólafs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Stafa, á fundinum í gær
kom fram að fyrirtækjaskuldabréf sjóðsins væru enn metin á tæpa 9,3
milljarða króna í bókum sjóðsins. Þorri bréfanna er útgefinn af félögum
sem eru annaðhvort í gjaldþroti, greiðslustöðvun eða glíma við
alvarlega rekstarerfiðleika. Þetta eru félög á borð við Landic
Property, Existu, Eglu, Eimskip, FL Group/Stoðir, Baug, Atorku og
Samson. Litlar líkur eru á nokkurri endurheimtu hjá hluta þessara
félaga. Þá er eignarhlutur Stafa í Straumi einnig bókfærður í
ársreikning sjóðsins á 221 milljón krónur. Hann er í dag verðlaus.