Utanríkisþjónustan, Útflutningsráð Íslands og Ferðamálastofa hafa hafið formlegt samstarf um kynningu á Íslandi sem ferðamannastað í samræmi við áætlanir um samhæfingu á kynningu Íslands erlendis. Stefnt er að því að sendiráð Íslands verði héðan í frá formlegur upplýsingaveitandi ferðamála erlendis og styðji af alefli við markaðsstarf Ferðamálastofu á helstu mörkuðum ferðaþjónustunnar.
Samstarfið endurspeglast m.a. í því að skrifstofur Ferðamálastofu í Kaupmannahöfn og Frankfurt verða lagðar niður, og munu verkefni þeirra flytjast að stórum hluta til sendiráða Íslands í viðkomandi ríkjum sem þannig taka að sér hlutverk markaðsskrifstofa ferðamála í náinni samvinnu við Ferðamálastofu og Útflutningsráð, að því er segir í tilkynningu.
Sendiráð Íslands hafa hafist handa við að kynna þetta aukna samstarf fyrir söluaðilum Íslandsferða á Norðurlöndum, blaðamönnum og starfsfólki sem mun starfa við ferðamálin. Var m.a. kynning í Kaupmannahöfn í síðustu viku þar sem kynntir voru til sögunnar þeir starfsmenn sendiráðanna á Norðurlöndum og í Berlín sem sérstaklega hafa verið tilnefndir sem umsjónarmenn ferðamála í viðkomandi ríkjum.
Þessir starfsmenn eru: Rósa Viðarsdóttir, Kaupmannahöfn; Elín Óskarsdóttir, Stokkhólmi; Arna Lísbet Þorgeirsdóttir, Helsinki; Lára Jónasdóttir, Osló (tímabundið); og Ruth Bobrich, Berlín en hún verður Davíð Jóhannssyni, forstöðumanni markaðsskrifstofu ferðamála í Frankfurt innan handar er hann flyst til Berlínar og heldur starfinu úti úr sendiráðinu.